Skinkuhorn sem bragð er að

Það elska allir skinkuhorn! Hér er ég bæði að prófa mig áfram með deig með hreinu Ísey skyri sem kom alveg ótrúlega vel út og svo ákvað ég líka að prófa að setja mexíkóost með skinkumyrjunni og toppa með osti og chilli pizzakryddi. Þessi útkoma er dásamleg og skemmtileg tilbreyting frá þeim klassísku en þessi uppskrift fyrir fjóra skammta dugar í 64 "spicy skinkuhorn".

1 klst 30 mín

4
skammtar

Uppskrift

Hráefni

Skinkuhorn

  • 1080 g Hveiti
  • 22 g Þurrger
  • 50 g Sykur
  • 2 tsk Salt
  • 4 egg
  • 260 g Ísey skyr hreint
  • 110 g Smjör við stofuhita
  • 250 ml Volgt vatn

Fylling og toppur

  • 900 g Skinkumyrja
  • 2 stk Mexíkó kryddostur
  • Stráið rifnum osti yfir skinkuhornin
  • 1 egg
  • 3 msk Nýmjólk
  • Pizzakrydd

    Leiðbeiningar

    1. Setjið þurrefnin í hrærivélarskálina og blandið saman með króknum.

    2. Pískið saman egg og skyr og bætið út í ásamt smjöri og volgu vatni.

    3. Hnoðið stutta stund og færið svo yfir á borðið og hnoðið betur.

    4. Penslið stóra skál með matarolíu og setjið deigkúluna þar ofan í og veltið henni um svo hún hjúpist öll olíunni.

    5. Plastið skálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund (það ætti að tvöfalda stærð sína).

    6. Skiptið deiginu niður í 8 hluta, fletjið hvern út í hring og skerið í 8 sneiðar með pizzuskera.

    7. Setjið góða teskeið af Skinkumyrju á hvern hluta ásamt smá Mexíkóosti, rúllið upp, lokið endunum og raðið á bökunarplötur.

    8. Pískið saman egg og nýmjólk og penslið skinkuhornin.

    9. Setjið næst rifinn ost yfir og smá krydd.

    10. Bakið við 190° í 10-13 mínútur eða þar til hornin fara að gyllast.