Með hækkandi sól þjóta hugrakkir landsmenn út á svalir og palla og skrúbba upp grill og gamla takta. Þá er tilvalið að prófa nýjar grilluppskriftir og enduruppgötva grillvorið mikla. Og já! Það má grilla allt!
Hráefni
4 maísstönglar
3 hvítlauksgeirar
3 stilkar vorlaukur
1 dl saxað kóríander
3 dl rifinn parmesan
1 msk Cajun eða Chipotle rub
150 g smjör
1 límóna - safinn
Salt
Pipar
Aðferð
- Takið blöðin utan af maísnum og látið liggja í köldu vatni á meðan að marineringin er útbúin.
- Bræðið smjörið í potti og pressið hvítlaukinn út í smjörið. Látið malla við vægan hita.
- Setjið saman í skál saxaðan vorlauk, kóríander og parmesan. Setjið til hliðar.
- Hellið helmingnum af smjörinu yfir maísinn og kryddið með cajun eða chipotle og saltið létt og piprið. Nuddið kryddinu vel inn í stönglana.
- Grillið í 15-20 mínútur.
- Kreistið límónusafann út í smjörið. Hellið svo smjörinu og parmesanblöndunni yfir og berið dýrðlegheitin fram.